Verði af áformum æðstu stjórnenda Ernst & Young á heimsvísu um að kljúfa fyrirtækið í tvennt mun það marka stærstu uppstokkun í endurskoðunarheiminum síðan um aldamótin, eða frá því að endurskoðunarstofan Arthur Andersen féll með Enron eftir að upp komst um stórfelld misferli og svik þess síðarnefnda.

Endurskoðun byggir á aragrúa staðla eins og flestir lesendur eflaust þekkja, og um hana gildir strangt regluverk. Þrátt fyrir staðlana felur starfsemin óhjákvæmilega í sér matskennda þætti sem lagðir eru í hendur endurskoðandans og endurskoðunarstofunnar. Það er því lykilatriði að hlutleysi og óhæði endurskoðandans sé yfir allan vafa hafið, og stór hluti regluverksins fjallar einmitt um það.

Helsta sóknarfærið í aðskilnaðinum felst því í því að losna undan þessum kvöðum. Sem ótengd félög mættu báðar einingar – þá orðnar fullkomlega sjálfstæðar hvor frá annarri – veita sama fyrirtækinu eða stofnuninni flestalla þá þjónustu sem völ er á. Sem eitt og sama fyrirtækið í dag er það miklum takmörkunum háð hvaða ráðgjafaþjónustu má veita samhliða endurskoðun.

Samlegðinni fórnað fyrir frelsið

Hin hliðin á þeim peningi er hins vegar sú að mikil samlegð er milli ráðgjafar- og endurskoðunarstarfsemi, sem reiðir sig mikið á þá innsýn sem ráðgjöfin veitir að sögn viðmælenda. Þótt ráðgjöf sé vissulega hægt að veita án tengsla við endurskoðunarstarfsemi sé samlegðin enn fremur þónokkur í þá áttina.

Aðskilnaðinn yrði því að öllum líkindum að útfæra sem ákveðinn Salómonsdóm, þar sem einhver hluti ráðgjafarinnar yrði eftir hjá endurskoðuninni sem stoðþjónusta, þótt hugsanlega mætti einnig sækja þá þekkingu út fyrir fyrirtækið með samningum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.