Hrund Rudolfsdóttir og Vilhjálmur Vilhjálmsson munu ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Eimskip. Tilnefningarnefnd fyrirtækisins hefur lagt til að Margrét Guðmundsdóttir og Ólöf Hildur Pálsdóttir verði kosnar í stjórnina í stað Hrundar og Vilhjálms á aðalfundi félagsins sem fer fram þann 25. mars næstkomandi.

Tilnefningarnefndin skipar fráfarandi stjórnarmennina Hrund og Vilhjálmi ásamt Óskari Magnússyni. Nefndin leggur til að stjórn Eimskips skipi:

  • Baldvin Þorsteinsson, formaður stjórnar
  • Lárus Blöndal, stjórnarmaður
  • Guðrún Blöndal, stjórnarmaður
  • Margrét Guðmundsdóttir
  • Ólöf Hildur Pálsdóttir

Margrét Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Lyng. Hún var áður forstjóri Austurbakka, sem síðar varð Icepharma, frá árinu 2005 til ársins 2016. Þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Skeljungs frá 1995 til 2005, framkvæmdastjóri Kuwait Petroleum í Danmörku 1986-1995 og skrifstofustjóri Esso í Danmörku frá 1982 til 1986. Margrét var forseti ESTA (European Surgical Trade Association); evrópskra samtaka dreifingarfyrirtækja á sviði hjúkrunarvara árin 2011-2013. Einnig var hún formaður Félags atvinnurekenda frá 2009-2013.

Margrét situr í stjórn Krónunnar, Heklu hf., Heklu Fasteignum ehf. og Paradís ehf. Áður hafði hún setið í stjórnum Reiknistofu bankanna árin 2010-2011 og  2016-2018, Isavia frá árinu 2017 til 2018, SPRON árin 2008-2009 og var stjórnarformaður N1 árin 2012-2018. Margrét er viðskiptafræðingur og stundaði nám við Háskóla Íslands og CBS í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk mastersnámi í starfsmannastjórnun.

Ólöf Hildur Pálsdóttir hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá atNorth frá árinu 2019. Áður starfaði hún sem sjálfstæður fjármálaráðgjafi og þar áður hjá Arion banka og forverum hans m.a. sem stjórnandi á fyrirtækjasviði. Ólöf er menntaður viðskiptafræðingur, Cand.Oecon af fjármálasviði við Háskóla Íslands en hún lauk námi árið 2000.