Vestfirðir hafa oft verið nefndir sem sá staður sem mest þarf að kynna fyrir erlendum ferðamönnum. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu heimsóttu einungis 6,3% ferðamanna Vestfirði yfir veturinn og 14,2% yfir sumarið árið 2014.

Díana Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi hjá Markaðsstofu Vestfjarða, segir Vestfirðinga vilja fá fleiri ferðamenn. Hins vegar verði að auka fjármagnið sem rennur til uppbyggingar ferðaþjónustu á Vestfjörðum. „Þessari stefnu um að dreifa betur ferðamönnum yfir landið þarf að fylgja ákveðið fjármagn,“ segir Díana. „Það þýðir ekki að segjast vilja fá fleiri ferðamenn vestur en svo ekki moka vegina nema sex daga vikunnar. Það var ekki fyrr en síðasta vetur sem byrjað var að moka sjö daga vikunnar.“

Díana segir Vestfirðinga vilja lengja hánnatímabil ferðamanna sem um þessar mundir stendur einungis í um sex vikur. „Við erum að horfa til þess að lengja það í sitt hvorn endann í apríl/maí og september/október.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .