Héraðsdómur Reykjavíkur hefur synjað Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings á Íslandi, um að dómkvaddir matsmenn verði kallaðir til í skuldamáli þrotabús Kaupþings gegn honum. Úrskurður féll í málinu í morgun.

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Málið snýr að niðurfellingu stjórnar Kaupþings á persónulegri ábyrgð lána til fyrrverandi starfsmanna bankans 25. september árið 2008, þ.e.a.s. nokkrum dögum áður en bankinn fór í þrot. Lánin fengu starfsmennirnir til kaupa á hlutabréfum Kaupþings. Skilanefnd bankans rifti niðurfellingunni þegar hún tók lyklavöldin.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að slitastjórn Kaupþings krefðjist þess að Ingólfur verði dæmdur til að greiða til baka 1.171.960.636 krónur ásamt vöxtum. Það er sú upphæð sem slitastjórnin segir Ingólf hafa auðgast um þessa upphæð við það að persónuleg ábyrgð hans var felld niður.

Ingólfur og lögmaður hans óskuðu eftir því að matsmaður meti forsendur og aðferðir sem lagðar voru til grundvallar við mat á verðmæti lánssamninga við framsal þeirra frá honum til Nýja Kaupþings.

Sigurður Einarsson greiðir 500 milljónir

Bent er á það í úrskurði héraðsdóms að sambærileg mál séu þegar fyrir dómi. Niðurstaða liggur þegar fyrir í nokkrum málum. Þar á meðal er mál Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings. Hann var dæmdur í sumar til að greiða Kaupþingi 496 milljónir króna auk vaxta vegna persónulegra ábyrgða á lánum. Það jafngilti um 10% af lánum hans.

Úrskurður héraðsdóms