Kortaþjónustan hefur krafið Borgun, Valitor, Íslandsbanka, Landsbankann og  Arion  banka um 922 milljónir króna í skaðabætur, auk dráttarvaxta frá árinu 2013, vegna samkeppnislagabrota fyrirtækjanna á árunum 2007 til 2009.

Að meðtöldum dráttarvöxtum nemur bótakrafan vel á annan milljarð króna. Bankarnir og kortafyrirtækin tvö gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið í desember 2014 þar sem þau viðurkenndu brot á samkeppnislögum á árunum 2007 til 2009. Fyrirtækin voru sektuð um 1,6 milljarða króna vegna brotanna. Samkeppnislagabrotin fólust í ákvörðun milligjalda og veitingu vildarpunkta á árunum 2007 til 2009.

Tómas Jónsson, lögmaður Kortaþjónustunnar, segir fjárhæð skaðabótakröfunnar byggja á matsgerð dómkvaddra matsmanna.

Stefndu vilja að málinu verði vísað frá

Kortaþjónustan stefndi fyrirtækjunum fimm og krafði þau um 1,2 milljarða króna auk dráttarvaxta árið 2013. Málinu var vísað frá í  Héraðsdómi  Reykjavíkur síðasta vor vegna  vanreifunar  og staðfesti Hæstaréttur dóm héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Í haust höfð- aði Kortaþjónustan nýtt mál á hendur fyrirtækjunum  og fór fram á áðurnefnda upphæð.

Bankarnir og kortafyrirtækin hafa farið fram á að málinu verði vísað frá dómi og verður frávísunarkrafan tekin fyrir síðar í febrúar. Málið hófst eftir að Kortaþjónustan kvartaði undan framferði fyrirtækjanna til Samkeppniseftirlitsins árið 2009 en endanleg ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var ekki birt fyrr en í apríl 2015 og tók meðferð málsins því á sjötta ár.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .