*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 11. febrúar 2018 10:02

Vilja milljarð í bætur frá keppinautum

Kortaþjónustan hefur krafið Borgun, Valitor og viðskiptabankana þrjá um bætur vegna samkeppnislagabrota.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kortaþjónustan hefur krafið Borgun, Valitor, Íslandsbanka, Landsbankann og  Arion  banka um 922 milljónir króna í skaðabætur, auk dráttarvaxta frá árinu 2013, vegna samkeppnislagabrota fyrirtækjanna á árunum 2007 til 2009.

Að meðtöldum dráttarvöxtum nemur bótakrafan vel á annan milljarð króna. Bankarnir og kortafyrirtækin tvö gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið í desember 2014 þar sem þau viðurkenndu brot á samkeppnislögum á árunum 2007 til 2009. Fyrirtækin voru sektuð um 1,6 milljarða króna vegna brotanna. Samkeppnislagabrotin fólust í ákvörðun milligjalda og veitingu vildarpunkta á árunum 2007 til 2009.

Tómas Jónsson, lögmaður Kortaþjónustunnar, segir fjárhæð skaðabótakröfunnar byggja á matsgerð dómkvaddra matsmanna.

Stefndu vilja að málinu verði vísað frá

Kortaþjónustan stefndi fyrirtækjunum fimm og krafði þau um 1,2 milljarða króna auk dráttarvaxta árið 2013. Málinu var vísað frá í  Héraðsdómi  Reykjavíkur síðasta vor vegna  vanreifunar  og staðfesti Hæstaréttur dóm héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Í haust höfð- aði Kortaþjónustan nýtt mál á hendur fyrirtækjunum  og fór fram á áðurnefnda upphæð.

Bankarnir og kortafyrirtækin hafa farið fram á að málinu verði vísað frá dómi og verður frávísunarkrafan tekin fyrir síðar í febrúar. Málið hófst eftir að Kortaþjónustan kvartaði undan framferði fyrirtækjanna til Samkeppniseftirlitsins árið 2009 en endanleg ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var ekki birt fyrr en í apríl 2015 og tók meðferð málsins því á sjötta ár.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.