Mark Cuban, eigandi Dallas Maverics, NBA meistara 2011, greiddi um sjö og hálfan milljarð króna í launakostnað á síðasta tímabili samkvæmt samantekt körfuboltafréttamiðilsins Hoopshype.com. Sjö af 30 liðum greiddu leikmönnum sínum hærri upphæð. Langhæst er upphæðin hjá Lakers-veldinu í Los Angeles, sem hefur innanborðs launahæsta leikmanninn Kobe Bryant. Eigendur liðanna og forsvarsmenn deildarinnar deila nú harkalega við samtök leikmanna um laun og launakerfi deildarinnar.

Leikmenn læstir úti

Um síðustu mánaðarmót tók gildi verkbann (e. lock out) í deildinni, þar sem ekki náðist að semja um launakerfið í tæka tíð. Það þýðir að liðum er óheimilt að æfa saman. Ástandið er því ólíkt verkfalli að því leyti að það eru eigendur liðanna sem grípa til þessara aðgerða.

Stéttarfélag leikmanna, sem kempan Derek Fisher leiðir, vill halda núverandi kerfi að mestu óbreyttu frá því sem nú er. Eigendur benda hinsvegar á að 22 af 30 liðum eru rekin með tapi og launakerfið sé of dýrt. Kerfið þykir flókið, en það byggir á launaþaki. Undanþágur eru þó margar og hafa liðin nýtt sér þær til að styrkja lið sín, með misjöfnum árangri.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.