Við komu sína til landsins þurfa farþegar að sýna vegabréf sín við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og er þannig hægt að skrá hverrar þjóðar farþegarnir eru. Talningin er framkvæmd fyrir Ferðamálastofu sem heldur utan um þessar upplýsingar.

Farþegar eru flokkaðir eftir sautján þjóðernum, en farþegar frá öðrum löndum fara í flokkinn „Aðrir“. Í fyrra lentu 142 þúsund farþegar í óskilgreinda hópnum, og hefur Ferðamálastofa óskað eftir því að þjóðum í talningunni verði fjölgað. Isavia óttast hins vegar að verði það gert geti raðir við öryggisleitina lengst.

„Það er ákfalega mikilvægt fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu að þekkja viðskiptavininn sem best, þ.e. þá ferðamenn sem sækja Ísland heim. Það er auðvitað eðlileg krafa að flokkunin á Keflavíkurflugvelli sé nákvæmari og hægt sé að fá betri greiningu á þjóðerni þeirra ferðamanna sem koma til landsins,“ segir í svari Skapta Arnar Ólafssonar, upplýsingafulltrúa Samtaka aðila í ferðaþjónustu, til Túrista .

Segir hann jafnframt að samtökin hafi barist lengi fyrir betri tölfræðiupplýsingum um þessa ört vaxandi atvinnugrein og því beri að fagna að Ferðamálastofa óski eftir frekari greiningu á hópi ferðamanna.