Samkeppniseftirlitið hefur beint þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að birta með meira áberandi hætti tengla á heimasíður einkarekinna vinnumiðlana, þar sem auglýsingar um laus störf birtast. Þá leggur Samkeppniseftirltið einnig til að Vinnumálastofnun hafi nánara samstarf við einkareknar vinnumiðlanir um veitingu þjónustu, t.d. með því að nýta úrvinnslu og skráningarkerfi þeirra eins og segir í úrskurði eftirlitsins.

Það var Nettengsl ehf., rekstraraðili Job.is sem kvartaði undan starfsemi Vinnumálastofnunar á markaði fyrir vinnumiðlun og atvinnuauglýsingar í apríl 2009. Í áliti eftirlitsins kemur fram að það teljiað samkeppni á markaðnum gæti verið hætta búin. Þar er rakið hvaða áhrif það hefur haft á einkareknar vinnumiðlanir í núverandi efnahagsástandi að atvinnurekendur hafi nýtt sér frekar gjaldfrjálsa þjónustu.

Í álitinu er því beint til Vinnumálastofnunar að hún beini í ríkari mæli þeim sem leita til stofnunarinnar í atvinnuleit til hinna einkareknu vinnumiðlana sem starfa á markaðnum. Einnig segir að varðandi nánara samstarf við einkareknar vinnumiðlanir komi til greina að bjóða út tiltekna verkþætti eða að gera þjónustusamninga við einkareknar vinnumiðlanir.