*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 19. febrúar 2021 09:22

Vilja nauðungarsölu á endurvinnslustöð

Farið hefur verið fram á nauðungarsölu á Tangavegi 7, en fasteignamat eignarinnar nemur 547 milljónum króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hvalfjarðarsveit og VÍS hafa farið fram á nauðungarsölu á Tangavegi 7 sem tilheyrir GMR Endurvinnslu ehf. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2017 en hafði þá verið starfrækt í fjögur ár. Krafa gerðarbeiðenda nemur 21,6 milljónum króna. Beiðnin verður tekin fyrir á skrifstofu Sýslumannsins á Vesturlandi á Stykkishólmi þann 18. mars næstkomandi. 

Á lóðinni er stálbræðsluhús sem er 4.325 fermetrar að stærð og starfsmannahús sem telur 167 fermetra. Fasteignamat eignarinnar er samtals 547 milljónir króna, samkvæmt Þjóðskrá.  

GMR Endurvinnsla sinnti endurvinnslu á stáli sem féll til hér á landi á Grundartanga. Umhverfisstofnun hafði á sínum tíma ítrekað gert athugasemdir við starfsemi fyrirtækisins á vegna vanefnda við að koma mengunarvörnum í ásættanlegt horf. 

„Þetta fyrirtæki var stofnað fyrir fjórum árum og það er búinn að vera erfiður og langur uppbyggingarfasi,“ var eftir eftir Daða Jóhannessyni, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í frétt Vísis árið 2017. „Erfiðari og lengri en menn ætluðu sér og það er margt sem spilar þar inn í. Heimsmarkaðsverð á stáli er þar langstærsti þátturinn."

Síðasti opni ársreikningur félagsins í ársreikningaskrá er frá árinu 2014. Í honum kemur fram að Strokkur Metal, sem er í meirihlutaeigu Harðar Jónssonar, hafi átt 60,5 % hlut í GMR Endurvinnslu. Járn & Blikk ehf, í eigu Stefán Arnars Þórissonar, átti 35,1% hlut í félaginu. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, var stjórnarformaður fyrirtækisins um tíma.