Búið er að höfða dómsmál á hendur Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone á Íslandi, þar sem þess er krafist að upplýst verði hverjir séu áskrifendur IP-talna viðskiptavina Fjarskipta sem stundað hafa ólöglegt niðurhal og dreifingu á myndefni á netinu. Dönsk og bresk kvikmyndarétthafasamtök, Zentropa Administration og Copy-right Management Services, höfðuðu málið.

Umfang niðurhals á Íslandi kemur á óvart

Guðrún Ólöf Olsen, lögmaður Njordlaw sem rekur málið fyrir hönd samtakanna, segir þau hafa upplýsingar um niðurhal frá mörg þúsund íslenskum IP-tölum. Það hafi komið á óvart hve víðtækt niðurhalið hér á landi virðist vera miðað við á hinum Norðurlöndunum.

Njordlaw hefur höfðað sambærileg mál í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi þar sem samtökunum hefur verið dæmt í vil. Í kjölfarið hefur áskrifendum IP-talnanna verið send bréf þar sem þeir voru krafðir um greiðslu fyrir notkun og dreifingu myndefnis, misháar eftir því hversu umfangsmikil dreifingin og niðurhalið var. Eftir að málareksturinn hófst fyrir um þremur árum er talið að nokkuð hafi dregið úr ólöglegu niðurhali í löndunum.

Á heimasíðu Njordlaw eru tiltekin dæmi um einstakling sem krafinn hafi verið um ríflega 80 þúsund krónur vegna deilingar á kvikmynd. Einnig er sagt frá finnsku dómsmáli þar sem áskrifandi IP-tölu var dæmdur til að greiða 4 milljónir króna vegna deilingar á tíu sjónvarpsþáttum Black Sails og kvikmyndinni A Walk Among the Tombstones á opnu þráðlausu neti.

Fleiri dómsmál gætu verið á leiðinni

Guðrún segir að ákveðið hafi verið að stefna Fjarskiptum fyrst. Vinnist málið séu líkur á að fleiri fjarskiptafyrirtæki verði krafin um upplýsingar um íslenskar IP tölur, þar sem ólöglegt niðurhal hafi verið stundað. Á Norðurlöndunum höfði samtökin með reglubundnu millibili slík mál til að fá upplýsingar um notendur IP-talna sem stunda ólöglegt niðurhal eða dreifingu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Deilur eru í eigendahópi Deloitte
  • Forseti ASÍ óttast átök í næstu kjarasamningalotu
  • Meirihluti þeirra sem taka afstöðu eru fylgjandi olíuleit
  • Nýsköpunarfyrirtæki Controlant hefur fengið 500 milljónir í nýtt hlutafé
  • Hagnaður fasteignafélaganna í Kauphöllinni jókst um 27,6% á síðasta ári
  • Blikur eru á lofti vegna bókunarstöðu í ferðaþjónustu
  • Viðtal við Jón Helga Pétursson framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa
  • Ný skýrsla McKinsey & Company fjallar um aðgerðir sem þarf að grípa til til þess að auka framleiðni
  • Samgönguráðherra segir óhjákvæmlegt að fallið verði frá núgildandi aðgangshindrunum á leigubílamarkaði
  • Ítarlegt viðtal við Jón von Tetzchner, fjárfesti, sem vill hindra upplýsingaöflun Apple, Facebook og Google.
  • Stangveiðifélag Reykjavíkur seldi veiðileyfi fyrir 363 milljónir
  • Umfjöllun um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna
  • Fyrirtækið Central Pay býður greiðslulausnir sem höfða til kínverskra ferðamanna
  • Viðtal við Tómas Ingason sem hefur snúið aftur til WOW air, nú sem framkvæmdastjóri viðskiptasviðs
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um Borgarlínuna
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Strætó