Kynnt hafa verið hugmyndir um nýtt skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar þar sem áætlað er að þétta byggð með nýju breiðstræti og lifandi jarðhæðum að því er Morgunblaðið greinir frá.

Hugmyndirnar byggja á vinnu Trípólí arkitekta fyrir bæinn en starfshópur um skipulag miðbæjarins var skipaður 28. mars 2019 síðastliðinn. Lagði hann til að arkitektastofan vinni áfram að deiliskipulagi miðbæjarins á grundvelli vinnu stofunnar. Þá höfðu borist hugmyndir frá tveimur öðrum stofum.

Í hugmyndunum er lagt til að uppbygging nýs miðbæjar verði skipt í áfanga þar sem byrjað verði á Strandgötunni sem sögð er hjarta bæjarins. Verði lögð áhersla á að tengja hana við nærliggjandi hverfi og gæti þá uppbygging Fjarðargötu og breyting á henni verið í öðrum áfanga, með tengingum strandlengjunnar og hafnarinnar við miðbæinn.

„Miðbær Hafnarfjarðar er annar af sögulegum miðbæjarkjörnum á stórhöfuðborgarsvæðinu ásamt því að vera miðstöð opinberrar þjónustu,“ segir í tillögunum sem starfshópurinn hefur sent frá sér.

„Hann þarf að efla enn frekar sem einn af helstu kjörnum verslunar, þjónustu og menningar.“ Hægt er að skoða drög að skýrslu um hugmyndavinnuna og gera gera athugasemdir til 20. september.