Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur lagt 35 milljón króna stjórnvaldssekt á vátryggingarmiðlunarfyrirtækið Tryggingar og ráðgjöf ehf. (T&R) Forsvarsmenn félagsins telja sektina ekki standast skoðun og hyggjast höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðuninni.

Þrætuepli málsins varðar markaðssetningu og dreifingu félagsins á afurð slóvakíska vátryggingafélagsins Novis. Umræddir samningar eru svokallaðar vátryggingatengdar fjárfestingaafurðir, það er ekki er aðeins um hefðbundinn vátryggingasamning að ræða heldur rennur hluti iðgjaldsins í fjárfestingasjóð.

„Okkur var boðið að gera sátt í málinu sem við að sjálfsögðu höfnuðum enda hefðum við með því viðurkennt brot. Það átti hins vegar enginn von á þessari sektarfjárhæð sem við teljum algerlega úr hófi,“ segir Hákon Hákonarson, framkvæmdastjóri T&R, en milljónirnar 35 séu um helmingur af eigin fé félagsins.

„Lögin eru skýr, ef viðskiptavinur vill ekki gefa upplýsingar þá ber okkur að upplýsa hann um að við getum ekki ráðlagt honum hvað fjárfestingahlutann varðar en við getum ekki bannað honum að gera samninginn. Lögin kveða ekki á um með afdráttarlausum hætti hvernig þetta skuli gert. Það er síðan enginn hagur í því fyrir okkur hvaða sjóð eða leið hann velur og því fráleitt að við höfum ráðlagt eitt um fram annað,“ segir Hákon. „Málsmeðferð FME hefur síðan verið til skammar, frestir til að mynda verið stuttir, og jaðrað við valdníðslu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .