Dómsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum hefur höfðað mál til að fá samruna American Airlines og US Airways ógildan. Með samrunanum yrði til stærsta flugfélag í heimi. Alríkisdómari í Bandaríkjunum gaf samþykki sitt fyrir samrunanum í mars síðastliðnum og Evrópusambandið hefur jafnframt gefið grænt ljós á samrunann.

Í kæru dómsmálaráðuneytisins segir hins vegar að samruninn myndi hækka verð á flugi því verulega yrði dregið úr samkeppni í Bandaríkjunum. Sex ríki innan Bandaríkjanna styðja málatilbúnað dómsmálaráðuneytisins, segir á vef BBC.

Það eru Texas, þar sem höfuðstöðvar American Airlines eru, Arizona, þar sem höfuðstöðvar US Airways eru, Flórída, Pennsylvanía, Tennesse og Virginía.

Hlutabréf í báðum flugfélögum lækkaði eftir að spurðist af málshöfðuninni í dag. American Airlines hefur verið í greiðslustöðvun síðan 2011 en rekstur US Airways hefur gengið ágætlega undanfarin ár.