Tryggingamiðstöðin hefur óskað eftir gögnum rannsóknarnefndar Alþingis til að nota í málsvörn gegn lögsókn Glitnis. Beiðni barst Þjóðskjalasafninu á síðasta ári um aðgang að öllum gögnum er vörðuðu Glitni, þ.m.t. skýrslum sem nefndin tók af stjórnendum og starfsmönnum Glitnis, tölvupóstsamskiptum, fundargerðum stjórnar Glitnis og nefnda bankans og fleira. Þjóðskjalasafnið hefur synjað beiðninni en ákvörðun þeirra var áfrýjaði til úrskurðarnefndar upplýsingamála þar sem það er nú til meðferðar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var það Tryggingamiðstöðin sem óskaði eftir gögnunum en lögmaður Tryggingamiðstöðvarinnar, Viðar Lúðvíksson, vildi ekki staðfesta það. Hann sagði þó bæði Tryggingamiðstöðina og Glitni hafa viðað að sér ýmsum upplýsingum í tengslum við málið.

Dómsmálið sem um ræðir varðar gildi stjórnendatryggingar sem stjórnendur Glitnis höfðu hjá TM. Í lok mars féll dómur í Héraðsdómi Tryggingamiðstöðinni í hag en slitastjórn Glitnis hefur sagst ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.