Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt aðilum máls að það hyggst skylda Já upplýsingaveitur, útgefanda símaskrárinnar á prenti og á netinu, til að veita öðrum aðgang að gagnagrunni sínum á kostnaðarverði að viðbættri eðlilegri arðsemi. Verðið er nærri 1,3 krónur fyrir hverja uppflettingu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Aðilum málsins, þar á meðal Já og Miðlun, hefur verið kynnt fyrsta niðurstaða og veittur frestur til andsvara. Sá frestur er liðinn. Heimildir herma ennfremur að eftirlitið hefur það til skoðunar að leggja stjórnvaldssekt á Já vegna aðgangshindrana, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir.

„Við kjósum að tjá okkur ekki frekar um málið, enda kveða málsmeðferðarreglur Samkeppniseftirlitsins á um að fara skuli með andmælaskjöl sem trúnaðarskjöl. Við ætlum að virða þá reglu þó svo það virðist sem aðrir aðilar á markaði geri það ekki,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.

Ekki náðist í Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, við vinnslu fréttarinnar. Andri Árnason, framkvæmdastjóri Miðlunar, vildi ekki tjá sig um málsmeðferðina að svo stöddu en vísaði til fyrri athugasemda sinna um málið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.