Íslenska kalkþörungafélagið ehf., sem rekur kalkþörungaverksmiðju í Bíldudal, er með í athugun að opna tvær nýjar verksmiðjur, aðra við Ísafjarðardjúp og hina í Stykkishólmi. Morgunblaðið greinir frá þessu.

„Við erum að semja við hagsmunaaðila og erum í rannsóknarvinnu í Ísafjarðardjúpi. Allar niðurstöður úr þeirri vinnu ættu að liggja fyrir í mars og þá liggur fyrir hvar í Djúpinu við munum sækja um námuleyfi en verið er að leita að kalkþörungum í Djúpinu. Við erum að tala um 12-15 störf í hvorri verksmiðju og síðan eru afleidd störf í kringum þjónustu og annað sem fyrirtækið þarf,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Morgunblaðið.

Einar segir að ef allt gangi upp verði hægt að opna verksmiðjuna í Stykkishólmi innan þriggja ára, en hins vegar séu þrjú til fjögur ár hið minnsta þar til verksmiðja verði opnuð í Ísafjarðardjúpi.