Nefnd um endurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna hefur skilað skýrslu sinni til innanríkisráðherra. Nefndinni var meðal annars ætlað skila tillögum til að auka gagnsæi, jafnræði og skilvirkni varðandi heimildir erlendra aðila utan EES til að öðlast eignar- og afnorarétt yfir fasteignum og jarðnæði hér á landi.

Þá var nefndinni falið að skýra reglur um heimildir þessara aðila til að eignast fasteignir og jarðnæði hér á landi.

Vilja aukið frjálsræði

Meðal tillagna nefndarinnar er að takmarkanir á eignar- og afnotarétti erlendra aðila í húsnæði verði felldar á brott, hvort sem eru aðilar innan eða utan EES. „Í þessu felst að þjóðerni skiptir ekki máli þegar einstaklingar eða lögaðilar fjárfesta í húsnæði hér á landi, eða taka húsnæði á leigu til langs tíma. Ekki þyrfti því leyfi ráðherra eins og nú er hvað varðar aðila utan EES svæðisins til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt af húsnæði,“ segir í skýrslunni.

Nefndin vekur þó upp spurningar um hvort málefnalegt væri að takmarka heildarfjölda fasteigna sem erlendir aðilar gætu átt. „Forsenda slíkrar takmörkunar væri sú að mikil og skyndileg uppkaup fjársterkra erlendra aðila gætu raskað jafnvægi á markaði eða takmarkað óeðlilega afnot innlendra,  aðila af eftirsóttum svæðum til búsetu eða fyrir atvinnustarfsemi ,“ segir í skýrslunni um slíka takmörkun.

Stærðartakmörk á sumum lóðum

Í skýrslunni kemur fram að ekki sé talið æskilegt að erlendir aðilar geti eignast lóðir sem eru stærri en 10 hektarar innan þéttbýlis. Þá er lagt til að erlendir aðilar utan EES geti ekki eignast heimili utan þéttbýlis sem er stærra en einn hektari og ekki eignast fleiri en eitt heimili með þeim hætti.

Þá leggur nefndin til að aðilar utan EES geti einungis eignast eina lóð utan þéttbýlis undir atvinnustarfsemi, sem má ekki vera stærri en 10 hektarar og að landið sé ekki ofan skipulagðrar hálendislínu. Engar takmarkanir skuli þó gerðar á að þessir aðilar geti tekið land á leigu til allt að tíu ára í senn í stað þriggja ára eins og nú er.

Mismunun á grundvelli þjóðernis óheimil

Í skýrslunni kemur fram að það sé álitið óheimilt að takmarka heimildir aðila innan EES til að öðlast eignar- eða afnotarétt á landi og fasteignum hér á landi nema sérstök og takmörkuð sjónarmið búi að baki slíkri takmörkun. Dæmi um slíkt væru umhverfis- og menningarvernd eða sjónarmið um fæðuöryggi.

Ekki væri þó óheimilt að gera búsetukröfu í vissum tilfellum til erlendra aðila innan EES sem hygðust kaupa fasteign hér á landi.

Nefndina skipuðu Katrín Olga Jóhannesdóttir, rekstrarhagfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra, Sigríður Á. Andersen lögfræðingur, tilnefnd af innanríkisráðherra, Ása Þórhildur Þórðardóttir lögfræðingur, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Andri Stefánsson skrifstofustjóri, tilnefndur af utanríkisráðherra og Þórður Reynisson lögfræðingur, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra.