*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 25. apríl 2019 14:23

Vilja plaströrin aftur á McDonalds

35 þúsund hafa skrifað undir áskorun á veitingastaðinn um að bjóða á ný plaströr, nokkrum dögum eftir Jarðardaginn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Einungis örfáum dögum eftir Jarðardaginn svokallaða sem víða er haldinn hátíðlegur til að vekja athygli á umhverfismálum, hefur undirskriftarsöfnun um að McDonalds dragi til baka ákvörðun um að hætta að bjóða upp á plaströr á veitingastöðum sínum náð 35 þúsund undirskriftum.

Sá sem að söfnuninni stendur, Martin Reed, segir ástæðuna fyrir henni vera að hann vilji geta drukkið mjólkurhristinginn sinn án vandkvæða að því er Marketwatch segir frá.

Má þar lesa fjölmargar athugasemdir þar sem tekið er undir viðkvæðið og kvartað sáran undan papparörunum sem veitingastaðakeðjan kom með í staðinn, þegar hún lét undan þrýstingi náttúruverndarsinna.

 

 

Hefur samfélagsmiðlateymi félagsins haft mikið að gera í að svara kvörtunum, en þrátt fyrir það staðfest að papparörin verði komin á alla veitingastaði keðjunnar innan tíðar. „Við munum vinna að því að halda í annan valkost fyrir þá sem það vilja,“ segir keðjan þó jafnframt.

Ákvörðunin um að hætta að bjóða upp á plaströr má rekja til mikillar umræðu um skaðsemi þeirra í náttúrunni sem vaknaði í kjölfar myndbands sem sýndi plaströr dregið úr nösum skjaldböku.

Hafa fleiri fyrirtæki, eins og Starbucks og American Airlines tekið svipaða ákvörðun, en um 35 milljón manns hafa horft á umrætt myndband. Jafnframt hafa um 215 þúsund skrifað undir hvatningu um að fjarlægja plaströr úr kvikmyndahúsum.