Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélags þess, Reykjavík Energy Invest, eru þessa dagana að kynna sér jarðhitamál í Jemen, Djíbútí og Eþíópíu með mögulegt samstarf í huga.

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, segir að viljayfirlýsing um frekari viðræður milli REI og Rafveitu Jemena um samstarf á sviði jarðhitamála hafi verið undirrituð um helgina. Hann segir að engar fjárhagslegar skuldbindingar fylgi þeirri yfirlýsingu en áframhaldandi viðræður geti hugsanlega leitt til þess að Íslendingar taki þátt í forkönnun á jarðhitasvæðum í Jemen. Ekki sé hins vegar búið að ákveða neitt.

„Töluverður orkuskortur er í Jemen. Þeir eru áhugasamir um að nota jarðhita til að framleiða rafmagn og vilja fá okkar aðstoð til þess,“ segir hann. Kjartan segir að hópurinn hafi meðal annars skoðað jarðhitasvæði í Jemen og fundað með stjórnvöldum til að kanna áhugann á frekara samstarfi. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og aðstoðarmaður hans eru einnig með í för.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .