Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að kannaðir verði kostir sameiningar Reykjavíkur og Álftaness og lýsir sig tilbúð til viðræðna við bæjarstjórn Álftaness. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í fréttatilkynningunni segir jafnframt að fram hafi komið í skoðanakönnun um vilja Álfnesinga til samningar að flestir íbúar vildu sameinast Reykjavík eða Garðabæ. Í framhaldinu hefur bæjarstjórn Álftaness óskað eftir viðræðum við fulltrúa Reykjavíkurborgar um vilja og mögulega hagræðingu af sameiningu við Reykjavík.

Í samstarfssamningi Samfylkingar og Besta flokksins er lögð áhersla á að Reykjavík taki forystu í umræðum um nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sameining Reykjavíkur og Álftaness gæti verið fyrsta skrefið í átt að markvissari og nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri sýn felst jafnframt að sjálfstæði hverfa í ákvörðunum, þjónustu og rekstri verði aukið.

„Það er mér mikið að skapi að tala við sem flesta og að allir séu glaðir,“ er haft eftir Jón Gnarr, borgarstjóra, í fréttatilkynningunni.