*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 17. maí 2019 13:15

Vilja ráða 100 vísindamenn

Alvotech hefur lokið 36 milljarða króna fjármögnun og ætlar að fjölga starfsfólki um hundrað.

Ritstjórn
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech
Aðsend mynd

Lyfjafyrirtækið Alvotech ætlar að fjölga starfsfólki félagsins um hundrað en í dag starfa 330 vísindamenn á Íslandi, Sviss og Þýskalandi. Í tilkynningu frá félaginu segir að störfin sem nú séu auglýst séu miðuð að einstaklingum með háskólamenntun á sviði verkfræði, líf-, raun- og lyfjavísindum. 

Alvotech lauk nýlega 36 milljarða króna fjármögnum með erlendum fjárfestum og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma gerðist hluthafi í fyrirtækinu með sex milljarða króna fjárfestingu.  

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, segir í tilkynningnunni að ánægjulegt sé að sjá hvernig fyrirtækið hafi vaxið og dafnað á stuttum tíma. „Uppbygging fyrirtækisins hefur gengið vel og nú er komið að ákveðnum tímamótum hjá okkur. Í ljósi þess hversu vel hefur gengið í okkar þróunarstarfi og undirbúningi fyrir markaðssetningu lyfja Alvotech þurfum við að styrkja innviði fyrirtækisins enn frekar. Hundrað nýir háskólamenntaðir vísindamenn og sérfræðingar verða ráðnir á þessu ári og það má vel hugsa sér að umsvif okkar og fjárfesting í íslensku efnahagslífi aukist enn frekar á næstu misserum.“