Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur kallað eftir rannsókn á fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins að því er mekur fram í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag. "Vöxturinn í útgjöldum til Fjármálaeftirlitsins virðist vera sjálfkrafa og án nokkurra hafta eða skilmála af hálfu stjórnarliða [...] og við sjálfstæðismenn í fjárlaganefndinni höfum varað við því að verða við óskum Fjármálaeftirlits með þeim hætti sem tillaga meirihlutans gerir ráð fyrir," hefur Morgunblaðið eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Samþykkt var á fundi fjárlaganefndar í gær að leggja til við efnahags- og viðskiptaráðherra að hann léti fara fram rannsókn á starfsemi FME og fjárþörf þess. Hálfur milljarður króna er settur í Fjármálaeftirlitið í fjárlögunum 2012, sem voru afgreidd út úr nefndinni í gær. "Maður hefði þá talið eðlilegt að þau heimiluðu ekki þessi útgjöld fyrr en sú rannsókn hefði farið fram sem þau vilja að eigi sér stað. Við horfum upp á gríðarlega auknar fjárveitingar í eftirlit. Þetta er illa rökstutt og með ólíkindum að horfa á að þessi stofnun eigi að geta vaxið því sem næst hömlulaust, eins og þarna er lagt til, á meðan aðrar stofnanir eru sveltar," segir Kristján Þór í samtali við Morgunblaðið