Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um rannsókn á Icesavemálinu.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að stofnuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem mun rannsaka embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu. Skal nefndin skipuð þremur sérfræðingum á þeim sviðum sem rannsóknin nær til.

Gert er ráð fyrir að Rannsóknarnefndin leggi mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenskra ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir bera á þeim ábyrgð.

Þingsályktunartillögunni var dreift í dag. Fyrsti flutningsmaður hennar er Guðlaugur Þór Þórðarson.