Fjárfestar í Apple vilja rannsaka hvort og hversu mikið iPhone síminn er ávanabindandi, einkum meðal yngri notenda. Jana Partners og Lífeyrissjóður kennara í Kaliforníu sem samanlagt eiga um 2 milljarða af hlutum í Apple sendu fyrirtækinu bréf síðustu helgi. Frá þessu er greint í The Wall Street Journal .

Í bréfinu var fyrirtækið hvatt til þess að hanna forrit fyrir notendur sem gæfi foreldrum stjórn á símum barnanna sinna þannig þeir ættu auðveldara með að takmarka símanotkun þeirra. Jafnframt hvöttu fjárfestarnir fyrirtækið ti þess að rannsaka hver áhrif ofnotkunar á símum væru á andlega heilsu.

Bréfið þykir harla óvenjulegt í heimi fjárfesta á Wall Street en fyrrnefnt fjárfestingarfélag, Jana Partners, hyggst freista þess í ár að stofna samfélagsmiðaðann sjóð sem hleypur á nokkrum milljörðum dala.