Þingmennirnir Eygló Harðardóttir, Sigurður Inga Jóhannsson, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa lagt fram frumvarp um að rannsókn fari fram á sparisjóðunum.

Í tilkynningu frá þeim segir að „ Íslenskir sparisjóðir hafa orðið fyrir miklu skakkaföllum.  Nauðsynlegt er að varpa skýru ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða, sem leiddu m.a. til gjaldþrots Sparisjóðs Mýrarsýslu, SPRON og Byrs Sparisjóðs og nauðsynlegrar endurfjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.“

Í frumvarpinu eru sett fram eftirfarandi markmið fyrir rannsóknina:

Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots íslenskra sparisjóða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um starfsemi sparisjóða á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Nefndin skal í þessu skyni:

a.      Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika margra íslenskra sparisjóða, sem leiddu m.a. til gjaldþrots Sparisjóðs Mýrarsýslu, SPRON og Byrs Sparisjóðs og nauðsynlegrar endurfjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.
b.      Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helsu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, auking stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár, hlutafélagavæðing þeirra sem og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.
c.      Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.
d.      Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að endurskoðun hjá sparisjóðunum og öðru eftirliti með starfsemi þeirra og kynningu á niðurstöðum þess eftirlits.
e.      Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir um.
f.      Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
g.      Skila Alþingi skýrslu um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Frumvarpið í heild má lesa hér .