Félagið Quadran Iceland Development áætlar að byggja allt að 27 vindmyllur við þjóðveginn yfir Laxárdalsheiði milli Hvammsfjarðar og Hrútafjarðar, en fyrsti áfangi framkvæmdanna yrði 85 MW virkjun.

Þetta kemur fram í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sem Mannvit og Environmental Resources Management hefur skrifað fyrir félagið, en framkvæmdasvæðið er um 3.200 hektarar upp á miðri heiðinni milli Búðardals og Borðeyri.

Nánar tiltekið er svæðið 23 kílómetra frá Búðardal, en Borðeyri í 10 kílómetra í burtu og næsti sveitabær, utan Sólheimabýlisins, er í 2,5 kílómetra fjarlægð. Framkvæmdasvæðið er á ytri mörkum sveitarfélagamarka Dalabyggðar, í landi Sólheima. Framkvæmdatími er áætlaður að hámarki 12 mánuðir.

Gætu náð 173 metra hæð

Í fyrsta áfanga er áætlað að byggja 20 vindmyllur, sem skila myndu 85 MW en annar áfangi 2, sem bætir við 7 vindmyllum yrði í biðstöðu þar til afkastageta raforkukerfisins gæti höndlað þau 30 MW sem kæmu að hámarki til viðbótar.

Mylluturnarnir eru áætlaðir 91,5 til 105 metra háir en spaðarnir 117 til 136 metra háir, svo ef gert er ráð fyrir að helmingur þess bætist við turnhæðina, verður heildarhæðin allt að 173.

Sjónræn áhrif eru ekki tíunduð í skýrslunni heldur verður fjallað um þær í frummatsskýrslu ásamt áhyggjum hagsmunaaðila, en svæðið er sagt vísýnt og landið vel sýnilegt frá Laxárdalsheiði. Svæðið er þó sagt afskekkt og lítið sé um ferðamenn á svæðinu.

Hljóðmengun við turnana er talin að hámarki 103,9 dBA (Lw), en hljóðstig í byggð má að hámarki vera 50 dBA að degi til og 40 dBA að nóttu til, en 35 dBA við frístundabyggð, en í skýrslunni er sagt að ekki sé vitað til þess að sumarbústaðir séu í nágrenninu.

Samkvæmt matinu er hljóðstigið yfir 40 dBA á allt að 850 metra radíus í kringum myllurnar, en Sólheimabýlið er í 800 metra fjarlægð. Samt sem áður er sagt ólíklegt að íbúar þar verði varir við hávaða af starfseminni.

Vilja banna rjúpnaveiði vegna áhrifa vindmyllanna á fuglalíf

Jafnframt er sagt að mögulega muni fuglalíf verða fyrir áhrifum, bæði geti staðfuglar og varpfuglar orðið fyrir röskun og glatað búsvæðum sínum, eða fljúgi á spaða myllanna eða önnur mannvirki eða komist ekki venjulega leið að fæðustöðvum eða svefnstað. Til að draga úr áhrifum er lagt til að banna rjúpnaveiði á svæðinu.

Nú þegar liggur háspennulína yfir heiðina, Glerárskógalína, sem sagt er í umhverfismatinu æskilegt að tengjast. Jafnframt hefur verið reist mælimastur til að meta vind og framleiðslugetu á svæðinu.

Í skýrslunni segir að svæðið bjóði upp á stórt landsvæði með stöðugum og sterkum vindstrengjum á afskekktu svæði, fjarri byggð, auk þess að vera með góðu aðgengi að vega- og raforkukerfum.

Nokkru sunnar við svæðið var annar valkostur, fyrir 45 vindmyllur skoðaður, en í skýrslunni segir að þar hefðu myllurnar hugsanlega verið sýnilegar byggðakjörnum í austri auk þess sem það svæði er að mestu votlendi. Í skýrslunni segir að eftir 25 ár verði svo metið hvort verkefnið verði stöðvað og vindmyllurnar teknar niður eða haldið áfram.