Kópavogsbær ætlar að reisa um 300 íbúðir, einkum fjölbýlishús, fyrir um 700 íbúa í austurhluta Glaðheima í bænum. Þar eru nú áhaldahús bæjarins, reiðskemma hestamannafélagsins Gusts og hluti gamla skeiðvallarins. Fjarlægja á mannvirkin.

Gildandi deiliskipulag Glaðheima var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs haustið 2009 og nær til um 12,6 hektara lands. Umrædd breyting á deiliskipulaginu gildir um austurhluta Glaðheima, sem er 3,6 hekt- arar að flatarmáli, og nefndur er byggingarreitur 2. Samkvæmt nýju aðalskipulagi sem hefur verið auglýst er reiknað með alls um 500 íbúðum á Glaðheimasvæðinu öllu, en áður áttu að rísa þarna 250 íbúðir. Því er eftir að deiliskipuleggja um 200 íbúðir auk atvinnu- og verslunarhúsnæðis á byggingarreit 1, sem mun rísa nær Reykjanesbrautinni og er hugsaður sem nokkurs konar hljóðmön fyrir íbúða- byggðinni á reit 2, að því er segir í Morgunblaðinu.