*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 10. janúar 2020 08:06

Vilja reisa hótel á Kjalarnesi

Íslenskar fasteignir og hópur fjárfesta vilja reisa 100 herbergja hótel á Kjalarnesi. Eggert Dagbjartsson meðal fjárfesta.

Ritstjórn
Eggert Dagbjartsson ku vera á meðal þeirra fjárfesta sem koma að verkefninu.
Haraldur Guðjónsson

Til stendur að reisa allt að eitt hundrað herbergja hótel í Nesvík á Kjalarnesi, en það er fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir ásamt hópi fjárfesta sem standa að baki verkefninu. Fyrr í vikunni voru umrædd áform kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Samþykkt var á fundinum að kynna lýsingu að nýju deiliskipulagi fyrir landið.

Fréttablaðið greinir frá þessu, en samkvæmt heimildum blaðsins er Eggert Dagbjartsson meðal þeirra fjárfesta sem koma að verkefninu. Eggert er á meðal eigenda bandaríska fjárfestingafélagsins Equity Resource Investments.

Líkt og sagt var frá í ítarlegu viðtali Viðskiptablaðsins við Eggert á síðasta ári, er Eggert á meðal fjárfesta sem koma að byggingu Marriott Edition hótelsins og lúxusíbúða í Austurhöfn, en umræddar byggingar rísa nú á reitnum við hlið Hörpunnar.