Arkitektastofan Zeppelin hefur í samstarfi við fjárfesta sótt um lóðina Brekkuás 12 í Garðabæ og vill hún hanna og byggja þar hagkvæmar og ódýrar íbúðir fyrir ungt fóæk. RÚV greinir frá.

Þetta kemur fram í bréfi Zeppelin arkitekta til bæjarráðs Garðabæjar, en mikil vöntun er á húsnæði fyrir ungt fólk. Hugmyndirnar frá Zeppelin eru nýjar af nálinni hérlendis og hafa ekki sést áður. Á meðal annars að setja af stað rýnihóp þar sem unnið verður að því að finna út hvaða óskir þarf að uppfylla varðandi húsnæði ungs fólks.

Íbúðirnar eru sagðar vera tækifæri fyrir ungt fólk til að eignast fyrstu íbúð sína og mynda í henni eigið fé strax frá upphafi frekar en að leita á leigumarkað. Ungt fólk sé líklega viljugt til að sleppa ýmsu því sem er til staðar í hefðbundnum íbúðum til að lágmarka kostnað sinn. Verður reynt að gera hvert rými fjölnota og er þá sótt í erlendar fyrirmyndir svokallaðra öríbúða.