Lagt hefur verið fram fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um leyfi til að byggja stærsta hótel Íslands á lóð við Hlíðarenda að því er Fréttablaðið greinir frá. Um yrði að ræða 446 herbergja hótel sem yrði byggt með nýstárlegri byggingartækni, því notaðar yrðu staðlaðar einingar frá kínverska fyrirtækinu CIMC-MBS í Guandong héraði í Kína.

Hótelið, sem yrði fjórar hæðir ef af yrði, auk kjallara, yrði samtals 17.500 fermetrar og stærra heldur en Fosshótel á Höfðatorgi. Lóðin sem um ræðir er á horninu þar sem Nauthólsvegur og Hringbraut mætast.

Páll Gunnlaugsson arkitekt og hönnuður verkefnisins segir að flutt verði inn fullbúin herbergi, en þeir biðja um í erindi sínu að vera undanþegna kvöð um að gras sé á þaki byggingarinnar.

„Þeir gera engar sérstakar athugasemdir. Þeir vilja skoða hvort gluggarnir standist slagveður og það er fullur skilningur á því.“ Eigendur lóðarinnar eru félagið O1 ehf. en að því standa Jóhann Halldórsson og Valgerður Margrét Backman.