Fyrirtækið Aqua Couture, sem skráð er í Írlandi, vill setja upp vatnsátöppunarverksmiðju í Hafnarfirði. Meðal hluthafa félagsins er rússneskur auðjöfur að nafni Alexander Titomirov, sem upphaflega auðgaðist á líftækniiðnaði í Bandaríkjunum. Morgunblaðið greinir frá málinu.

„Þetta er allt á frumstigi ennþá en hefur verið í undirbúningi í langan tíma. Verkefnið er spennandi,“ segir Davíð Stefánsson í samtali við Morgunblaðið, en hann er meðal hluthafa fyrirtækisins.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar samþykkti nýlega viljayfirlýsingu um viðræður við Aqua Couture, en viðræður um kaup á vatni eru þó ekki byrjaðar. Í viljayfirlýsingunni er hins vegar kveðið á um að fyrirtækið fái aðgang að vatni úr Kaldárbotnum til næstu 25 ára.