Bandaríski vogunarsjóðurinn Elliot Management, sem festi nýverið kaup á ríflega 4% hlut í samfélagsmiðlinum Twitter, vill reka Jack Dorsey úr starfi forstjóra fyrirtækisins samkvæmt frétt Financial Times . Ástæðan fyrir þessum aðgerðum sjóðsins er sú að auk þess að vera forstjóri Twitter er Dorsey sem jafnframt er stofnandi fyrirtækisins einnig forstjóri fjártæknifyrirtækisins Square en hann kom einnig að stofnun þess fyrirtækis.

Elliot sem er nú orðinn einn af 10 stærstu eigendum Twitter hefur átt í viðræðum við stjórn fyrirtækisins og hefur lagt fram nöfn fjögurra einstaklinga sem eigi að mæta Dorsey í kosningu á hluthafafundi sem fram fer í maí næstkomandi. Sjóðurinn telur Twitter eiga við stjórnendavandamál að stríða sem koma bæði til af því að Dorsey sé ekki að fullu einbeittur á Twitter auk þess sem starfsmannavelta í stjórnendastöðum hefur verið mikil.

Dorsey hefur verið forstjóri Twitter frá árinu 2015 en hann var skipaður þrátt fyrir að stjórn félagsins hafi gefið það út að forstjórinn ætti eingöngu að sinna Twitter. Á sama tíma hafa fjárfestar haft áhyggjur af því að hann leggi meiri áherslu á og hafi meira undir hjá Square þar sem hann fer með 13% hlut auk þess sem fyrirtækið er metið á um 35 milljarða dollara á meðan markaðsverðmæti Twitter er um 27 milljarðar en hlutur Dorsey í fyrirtækinu er um 2%.

Þá vakti Dorsey töluverða athygli á síðasta ári þegar hann tilkynnti um að hann ætlaði sér að flytjast til Afríku í 6 mánuði á þessu ári til að vinna í tækifærðum sem varða bjálkakeðjur (e. blockchain) og stafrænar myntir.

Elliot Management sem er um 37 milljarðar dollara af stærð hefur áður beitt sér sem áhrifafjárfestir og segir í frétt FT að hann sé líklega sá sjóður sem stjórnendur fyrirtækja óttast mest. Sjóðurinn hefur áður beitt sér hjá stórfyrirtækjum á borð við AT&T, eBay og Samsung.