Fjárfestingasjóðurinn Trillium Asset Management lagði fram tillögu um að reka Mark Zuckerberg, stofnanda, forstjóra og stjórnarformann netrisans, úr stjórnarformannsstólnum á miðvikudag, stuttu áður en svört ársfjórðungsskýrsla og svartsýni fjármálastjórans ollu fimmtungslækkun hlutabréfa í félaginu.

Tillagan segir meðal annars að „framkvæmdastjóri sem einnig gegnir hlutverki stjórnarformanns hafi óhóflega mikið vald yfir stjórninni, og veiki þar með aðhaldshlutverk hennar,“, og felur þess í stað í sér að skipaður verði óháður stjórnarformaður.

Trillium á aðeins um 11 milljón dollara virði af bréfum í félaginu, en Business Insider segir viðmælendur sína sem hafi tekið undir áhyggjur Trillium eiga um 3 milljarða dollara í Facebook.

Tillagan segir slæma meðhöndlun Facebook á nýlegum hneykslismálum helstu ástæðu þess að nauðsynlegt sé að skipta Zuckerberg út sem stjórnarformanni. Zuckerberg hefur sætt yfirheyrslum bandaríska þingsins eftir að í ljós kom að ráðgjafafyrirtækið Cambridge Analytica nýtti sér gögn frá Facebook til að stunda hnitmiðaðan áróður fyrir Donald Trump, sem réð fyrirtækið í kosningabaráttunni.