Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, lögðu í gær fram frumvarp sem felur í sér að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði í tveimur skrefum.

Lagt er til að fyrst verði settar takmarkanir á árunum 2022-23 þar sem RÚV yrði óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og að lokum er lagt til að kostun verði bönnuð. Samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verði síðan alfarið hætt í byrjun árs 2024,

Í greinargerð segir að markmið frumvarpsins sé að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki. Flutningsmenn telja með því að Ríkisútvarpið verði dregið út af samkeppnismarkaði auglýsinga og kostunar fái fyrirtækið aukið svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum.

„Um það verður vart deilt að frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti. Á sama tíma og samkeppnisstaðan er skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins standa einkareknir innlendir fjölmiðlar frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn. Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald,“ segir í greinargerðinni.

Óli Björn segir í samtali við mbl.is að frumvarpið sé lagt fram sem svar við frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna miðla. „Menn forðast að skera meinið í burtu en vilja þess í stað gefa sjúklingnum lyf,“ segir Óli Björn.

Samkvæmt ársreikningi RÚV fyrir árið 2019 námu tekjur af samkeppnisrekstri um 2,2 milljörðum króna. Flutningsmenn telja óvarlegt að ælta að tekjur ríkisfyrirtækisins af sölu auglýsinga og kostunar komi óskertar í hlut sjálfstætt starfandi fjölmiðla ef frumvarpið yrði samþykkt. „Þó má ætla að tekjur sjálfstæðra fjölmiðla aukist verulega og mun meira en gert er ráð fyrir í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla,“ segir í greinargerð frumvarpsins.