*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 4. september 2017 12:36

Vilja ryðja hindrunum úr vegi

SI og samtök gagnavera fagna skipan starfshóps ráðherra um starfsumhverfi gagnavera. Þau vilja skýra samkeppnisstöðuna við önnur lönd.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök iðnaðarins og Samtök gagnavera, DCI, fagna stofnun starfshóps sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur sett á laggirnar í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að greina og meta starfsumhverfi gagnavera.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá, þá er hlutverk starfshópsins er meðal annars að leggja mat á vöxt og viðgang gagnaversiðnaðar á Íslandi, skoða samkeppnishæfni Íslands samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum, kanna aðgerðir nágrannaþjóða til stuðnings við gagnaversiðnað og aðrar mögulegar úrbætur á starfsumhverfi greinarinnar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það jafnframt vera fagnaðarefni að sjá að starfsumhverfi gagnavera sé á lista yfir helstu þingmál sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hyggst beita sér fyrir á komandi þingi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá samtökunum.

„Við bindum miklar vonir við þá áherslu sem lögð er á málaflokkinn innan ráðuneytisins. Það er mikilvægt að Ísland verði samkeppnishæfara á þessu sviði og skýr sýn stjórnvalda getur haft mjög jákvæð áhrif á frekari uppbyggingu í gagnaversiðnaði hér á landi,“ segir Sigurður.

Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka Gagnavera (DCI) fagnar stofnun starfshópsins og þeim áherslum sem koma fram í skilgreindu hlutverki hópsins.

„Það er mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld að draga fram og skýra samkeppnisstöðu gagnaversiðnaðarins við önnur lönd þannig að hægt sé að forgangsgraða þeim atriðum sem stutt geta við frekari vöxt greinarinnar á næstu árum ásamt því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem hamlað geta enn meiri árangri á þessu sviði,“ segir Jóhann Þór.

„Gagnaversiðnaðurinn gegnir sífellt mikilvægara hlutverki þegar kemur að hýsingu og úrvinnslu gagna og skiptir þar miklu máli að Ísland getur boðið upp á umhverfisvænni, og á flestum sviðum hagkvæmari lausnir, en önnur lönd þó samkeppnin fari sífellt vaxandi.“

Samtök gagnavera, DCI, er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins sem vinnur að því að bæta starfsskilyrði gagnavera á Íslandi. Innan samtakanna eru átta aðilar en unnið er að uppbyggingu fleiri gagnavera hér á landi.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is