Stjórnir Auðar Capital hf. og Virðingar hf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um sameiningu félaganna. Í tilkynningu vegna viljayfirlýsingarinnar segir að ef af sameiningu félaganna verður, muni sameinað félag verða eitt öflugasta verðbréfafyrirtæki á Íslandi og verða leiðandi samstarfsaðili fagfjárfesta og efnameiri einstaklinga.

Sameinað félag mun bjóða upp á alhliða verðbréfaþjónustu, þar sem áhersla verður lögð á eignastýringu.  Að auki mun sameinað félag bjóða upp á miðlun verðbréfa, fyrirtækjaráðgjöf, rekstur verðbréfasjóða, veðskuldabréfasjóða, framtakssjóða auk annarra fagfjárfestasjóða.

Heildareignir í stýringu hjá sameinuðu félagi verða allt að 100 milljarðar króna og heildareignir í fjárvörslu allt að 180 milljarðar króna. Í tilkynningu segir að í sameinuðu félagi verði lögð áhersla á fagleg vinnubrögð, áreiðanleika og óhæði.  Þá verði lögð áhersla á að félagið verði í jafnri dreifingu eignarhalds lífeyrissjóða, fagfjárfesta og einstaklinga og ráðgert sé að enginn fari með meira en 10% eignarhlut.

Stefnt er á  samruna félaganna fyrir næstu áramót með samþykki hluthafafunda og eftirlitsstofnana.