Fyrrum forsætis- og fjármálaráðherrar á vinstri væng evrópskra stjórnmála hafa kallað eftir því að komið verði á fót samevrópskri eftirlitsstofnun sem hefði það hlutverk að vernda borgarana gegn þeirri „félagslegu hættu“ sem stafi af nútíma kapítalisma.

„Fjármálaheimurinn hefur sankað að sér gríðarlegum upphæðum af ímynduðu fjármagni, sem hefur skilað mjög litlum ávinningi fyrir mannkynið,“ segir í opnu bréfi hópsins til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) og forseta Evrópuþingsins.

Í bréfinu segir jafnframt að núverandi fjármálakreppa eigi ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hafi náið með þróuninni á fjármálamörkuðum undanfarin ár.

„Það var ekki, eins og sumir viðskipta- og stjórnmálaleiðtogar hafa haldið fram, ómögulegt að sjá þetta í hendi sér. Fyrir skýra einstaklinga fóru viðvörunarbjöllurnar að hringja fyrir mörgum árum. Þessi kreppa á upptök sín í lélegu - eða jafnvel engu - regluverki um markaði og sýnir okkur, í enn eitt skiptið, að það er ekki hægt að treysta fjármálamörkuðum að setja sér sínar eigin reglur.“

Vill hópurinn að framkvæmdastjórn ESB stofni sérstaka nefnd sem geti tekið „málið í sínar hendur,“ að því er fram kemur í frétt The Daily Telegraph.

Hópurinn inniheldur meðal annars Helmut Schmidt, fyrrum kanslara Þýskalands, Lionel Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, og Jacques Delors, sem gegndi embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB á árunum 1985 til 1995.

Á það er bent í frétt Daily Telegraph að enda þótt hópurinn samanstandi af stjórnmálamönnum úr röðum sósíalistaflokka, þá séu skoðanir þeirra að sumu leyti í líkingu við þær sem Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa viðrað síðustu mánuði. Bæði hafa þau kallað eftir aðgerðum til herða eftirlit með spákaupmennsku á mörkuðum og fjárfestingum vogunarsjóða.

Í bréfinu er því einnig haldið fram að fjármálamarkir séu sífellt að verða ógagnsærri samfara því að stærð „skuggabankakerfisins“ hefur stækkað til muna á seinustu tuttugu árum.

Að sögn hópsins hefur siðferði í viðskiptalífinu jafnframt farið mjög hrakandi.

„Einn fjárfestingabanki hagnaðist um milljarða evra með því að veðja á hrunið á bandaríska undirmálslánamarkaðnum á sama tíma og hann seldi slíka skuldabréfavafninga til viðskiptavina sinna. Þetta er fullkomið dæmi um minnkandi viðskiptasiðferði,“ segir í bréfi hópsins.