*

sunnudagur, 16. maí 2021
Erlent 10. febrúar 2019 14:23

Vilja sekta Airbnb um 1,7 milljarða

Airbnb og París deila um hver beri ábyrgð á auglýsingum sem ekki innihalda skráningarnúmer.

Ritstjórn
Frakkar eru ekki óvanir mótmælum, en stjórnvöld í París vilja setja deilihagkerfinu enn frekari skorður en nú er.
epa

Parísarborg hyggst lögsækja deilihagkerfisvefsíðuna Airbnb fyrir ólöglegar auglýsingar sem gæti kostað félagið 12,5 milljón evrur, eða sem samsvarar 1,7 milljörðum íslenskra króna.

Airbnb segir á hinn bóginn að reglurnar í París séu úr hófi fram og geti brotið staðla Evrópusambandsins. Segir talsmaður fyrirtækisins auk þess að reglur borgarinnar séu óhagkvæmar og brjóti meðalhóf.

Beinist lögsóknin að um 1.000 auglýsingum sem borgin hefur fundið fyrir húsnæði í borginni sem ekki innihalda skráningarnúmer sem skylda er að birta með þar í landi líkt og hér. Hámarksútleigan er þó nokkuð rýmri í Frakklandi eða 120 dagar, meðan hér á landi er hámarkið 90 dagar. 

Byggir lögsóknin á lögum frá síðasta ári sem setur ábyrgðina á birtingu slíkra auglýsinga á fyrirtækið og er hægt að sekta þau um 12.500 evrur fyrir hverja auglýsingu em ekki inniheldur skráningarnúmerið. Anne Hidalgo borgarstjóri segir markmiðið vera að gefa deilisíðum skýr skilaboð um að stöðva ólöglega útleigu sem hún segir eyðileggja sum hverfi að því er Reuters segir frá.

Stjórnvöld víða um heim líta á Airbnb og önnur álíka deilihagkerfi vera ósanngjarna keppinauta við hótel og gististaði og geti gert hverfi að líflausum túristasvæðum.

Airbnb segir þvert á ásakanir borgarstjórnar að félagið hafi, í samstarfi við aðrar slíkar síður, gripið til ráðstafana að því er Bloomberg greinir frá. Setur talsmaður fyrirtækisins sérstaklega fyrirvara við kröfum um að það verði að framfylgja því að auglýsingar innihaldi skráningarnúmer.

Stikkorð: ESB Frakkland París Airbnb Anne Hidalgo