Byggingafélag námsmanna hefur falið Fjármálaráðgjöf Deloitte að annast sölu á fasteignum félagsins á Laugarvatni og eignarhlut sínum í Gufu ehf., sem á og rekur baðaðstöðuna Laugarvatn Fontana.

Eignirnar voru auglýstar til sölu í gærmorgun.

Í tilkynningu til fjárfesta kemur fram að fasteignir félagsins á Laugarvatni eru þrjár talsins og fjöldi íbúða er 26 en þær hafa verið í útleigu til nemenda á veturna sem stunda nám á svæðinu. Samkvæmt auglýsingu félagsins er full útleiga á íbúðum í sumar.

Laugarvatn Fontana opnaði í júlí 2011 en um er að ræða baðhús sem byggt var í kringum gufubaðið á Laugarvatni. Boðinn er til sölu um 23% eignarhlutur í félaginu. Aðrir stórir hluthafar félagsins eru meðal stærstu ferðaþjónustuaðila landsins.