Bæði Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra og Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets, telja nauðsynlegt að breyta eignarhaldi fyrirtækisins. Þetta kom fram á vorfundi Landsnets á þriðjudaginn en á fimmtudaginn lét Geir af stöfum sem stjórnarformaður. Í dag er Landsnet í eigu fjögurra orkufyrirtækja. Landsvirkjun á 65% hlut, RARIK 22%, Orkuveita Reykjavíkur 7% og Orkubú Vestfjarða 6%.

Ástæðan fyrir þessu eignarhaldi er að þegar raforkulögum var breytt var kveðið á um að eitt hlutafélag skyldi annast flutning á raforku og kerfisstjórnin. Þegar Landsnet var stofnað árið 2005 tók fyrirtækið því yfir flutningsmannvirki, sem voru í eigu orkufyrirtækjanna fjögurra og á móti eignuðust þau hluti í Landsneti.

Að sögn Geirs er mikilvægt að stjórnvöld í samráði við Landsnet og eigendur fyrirtækisins, marki stefnu og undirbúi áætlun um breytingu á eignarhaldi fyrirtækisins. Hann sagði að núverandi eignarhald ylli tortryggni á meðal viðskiptavina og að skapa þurfi tækifæri fyrir þá „til að selja ríkinu, sveitarfélögum eða fjárfestum hluti sína."

Breyta þarf lögum

Ríkisendurskoðunar fjallaði um Landsnet í skýrslu, sem kom út fyrir áramót. Í henni kemur fram að mikilvægt sé að kanna "allar leiðir til að tryggja og efla sjálfstæði Landsnets gagnvart öðrum aðilum á raforkumarkaði“.

„Ef einhver þeirra vill selja hlut sinn til einkaaðila eða opinberra aðila þarf því að breyta lögum," sagði Ragnheiður Elín. „Ég er sammála Ríkisendurskoðun um að mikilvægt sé að efla og tryggja sjálfstæði Landsnets og tel því rétt að við skoðum vandlega allar leiðir í því skyni. Að sama skapi þurfum við að gæta okkar og rasa ekki um ráð fram við lagabreytingar enda miklir hagsmunir í húfi, bæði hjá flutningsfyrirtækinu sem og eigendum þess."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .