Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram sameiginlega þingsályktunartillögu um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

Tillögurnar, sem eiga að vera komnar til framkvæmda um miðjan júlí, snúa að stöðu heimila, fyrirtækja, fjármálum hins opinbera, atvinnumálum, peningamálastjórn og fjármálakerfinu.

Meðal þess sem lagt er til varðandi fyrirtækin er að mótuð verði skýr stefna, byggð á gagnsæi, jafnræði og hagkvæmni um það hvernig unnið verði að sölu þeirra eignarhluta í fyrirtækjum sem ríkisbankarnir leysa til sín. Þessi stefnumörkun verði gerð í hópi sem allir stjórnmálaflokkar eigi fulltrúa í.

Í tillögum sem snúa að heimilum er lagt til að rýmkuð verði verulega skilyrði þess að heimili geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána. Þá er lagt til að myndaður verði sérfræðingahópur sem fjalli um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána í þeim sérstöku tilvikum þegar almenn greiðsluerfiðleikaúrræði duga ekki. Þá verði stimpilgjöld afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.

Meðal tillagna í ríkisfjármálum eru, að sett verði fram raunhæf áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að á þremur árum verði hallinn án vaxtagjalda horfinn og ríkisfjármál verði sjálfbær. Leggja þurfi áherslu á að stækka skattgrunna í stað þess að auka álögur.

Ríkisbankarnir verði seldir

Þá leggur þingflokkurinn til að mótuð verði stefna um framtíð ríkisbankanna, skráningu á markað og sölu eignarhluta til almennings. Þá verði þegar hafist handa við að setja reglur um dreifða eignaraðild fjármálafyrirtækja.

Sjá tillögur þingflokks Sjálfsæðisflokksins hér.