Eigendur stórmarkaðakeðjunnar Somerfield, sem rekur ríflega 900 verslanir í Bretlandi, hafa beðið Citigroup um að leita að nýjum eigendum.

Fjárfestahópur undir forystu fasteignaspekúlantsins Roberts Tchenguiz, sem er hluthafi og stjórnarmaður í Existu, eignaðist Somerfield síðla árs 2005 fyrir 1,8 milljarða punda. Auk Barclays Capital og Apax Partners er Kaupþing meðal eigenda en í þriggja mánaða uppgjöri bankans í fyrra kom fram að Kaupþing ætti 9% í Somerfield. Talið er að hópurinn horfi til þess að tvöfalda það 500 milljóna punda (64 milljarðar kr.) eiginfjárframlag sem lagt var til kaupanna á sínum tíma eins og kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings. Söluverð Somerfield gæti numið 2 til 2,5 milljörðum punda. Ef það gengi eftir gæti Kaupþing hugsanlega innleyst allt að 50 milljónir punda.

Síðan þessi hópur fjárfesti í Somerfield hafa verið gerðar miklar breytingar á félaginu. Þannig seldi félagið Kwik Save keðjuna fyrir 200 milljónir punda en verulegt tap var af henni. Þegar Apax hópurinn kom að Somerfield voru 1500 verslanir undir hatti félagsins en eru núna 955. Þar munar mestu um söluna á Kwik Save. Þá var félagið fimmta stærsta stórmarkaðskeðja Bretlands en í dag er Somerfield er sjötta stærsta keðjan á eftir Tesco, Asda, Sainsbury, VM Morrison og Co-operative. Fjögur síðasttöldu félögin eru nefnd til sögunnar sem hugsanlegir kaupendur – að öllu leyti eða hluta til að því er segir í Hálffimm fréttum.

Jafnframt hafa nöfn Waitrose og Marks & Spencer borið á góma en markaðshlutdeild Tesco á breskum smásölumarkaði kemur eflaust í veg fyrir yfirtöku á Somerfield. Samkeppnisyfirvöld í Bretlandi hafa haft stóru stórmarkaðina til rannsóknar á síðustu mánuðum og er búist við að niðurstaða liggi fyrir í apríl. Reiknað er með að yfirvöldin leggi þá línurnar hvað varðar frekari samþjöppun á breskum smásölumarkaði og má því fastlega búast við að salan á Somerfield skýrist fyrst þá.

Nú mun vera uppi áform um að efla keðjuna á ný með opnun á 250 nýjum verslunum. Í síðustu viku greindi Somerfield frá því að sala félagsins hefði aukist um 4,7% og er gert er ráð fyrir að EBITDA sala verði 227 milljónir punda af um 4,4, milljarða punda veltu.