Icelandair hefur sótt um sextán þúsund fermetra lóð í Hafnarfirði. Ástæðan er uppbygging á húsi sem mun hýsa flughermi sem Icelandair ætlar að setja upp hér á landi til að þjálfa upp flugmenn. Ekki fengust upplýsingar um það hjá Icelandair hver áætlaður kostnaður við uppbygginguna er.

„Við ráðgerum að hefja þjálfun þarna síðla árs 2014, eða eftir rúmt ár,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við VB.is. Hann segir að hingað til hafi flugmenn fengið þá þjálfun, sem þeir munu í framtíðinni fá í Hafnarfirði, erlendis. Á síðustu árum hefur sú þjálfun farið fram í Danmörku.

Flughermirinn er af gerðinni B757 „Level D“ sem er nákvæm eftirlíking af stjórnklefa Boeing 757 flugvélar eins og Icelandair notar í sínum flugrekstri. Flughermirinn líkir eftir flugeiginleikum Boeing 757 flugvéla og unnt er að kalla fram margháttaðar bilanir og óvæntar aðstæður og þjálfa viðbrögð flugmanna, sem og þjálfa flug við breytileg veðurskilyrði til að reyna á þjálfun þeirra.