Á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir skömmu var samþykkt að farið skyldi í leiðréttingu á verðtryggðum lánum. Búast má við tillögum frá starfshópi flokksins um hugmyndir að nánari útfærslum fyrir kosningarnar sem nú eru á næsta leiti.

„Formaður flokksins hefur hins vegar bent á að það mætti nota til þess fjármuni sem verða væntanlega skattlagðir á vogunarsjóði og einhverja slíka til þess að bera eitthvað af þessum kostnaði. Án þess að nefna upphæðir eða hversu mikið ætti að leiðrétta,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Eins og margoft hefur komið fram mun einhver þurfa að taka á sig tap ef ákveðið verður að færa niður verðtryggðar skuldir heimila landsins. Fjármagnseigendur, hvort sem um er að ræða lífeyrissjóði, fjármálafyrirtæki eða aðra, hafa ekki gefið mikið fyrir slíkar hugmyndir. Þeir aðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við innan lífeyriskerfisins hafa frekar bent á leiðir ríkisins til að skipta öðrum eignum, eins og eignarhlut í Landsvirkjun, í staðinn fyrir útgefin íbúðabréf Íbúðalánasjóðs. Þ.e. lífeyrissjóðirnir vilja nálgast málið á viðskiptalegum forsendum sem ekki mun rýra eignastöðu þeirra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.