Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær lagafrumvarp um söluskatt á vörur sem seldar eru yfir netið. Í raun er ekki um skattlagningu að ræða, heldur felur frumvarpið í sér að einstök ríki Bandaríkjanna geti innheimt söluskatt af vörum sem seldar eru í netverslunum. Hingað til hafa ríkin aðeins getað gert það ef seljandinn er með starfstöð í viðkomandi ríki.

Stuðningsmenn löggjafarinnar segja að núverandi fyrirkomulag mismuni fyrirtækjum. Fyrirtæki eins og Wal-Mart, Best Buy og Target eru með verslanir í flestum ef ekki öllum ríkjum Bandaríkjanna og er því innheimtur söluskattur þegar þau selja vörur yfir netið. Sú er sjaldnar raunin þegar Amazon eða Ebay er seljandinn.

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið samþykkt með 69 atkvæðum af 100 í öldungadeildinni er þó ekki gefið að það verði að lögum, því fulltrúadeildin á eftir að taka það til afgreiðslu.