Hagfræðingar alþjóðlega bankans Deutsche bank leggja til 5% skatt á tekjur þeirra sem vinna heima, sem notaður verði til að greiða þeim bætur sem ekki geti unnið heima.

Skatturinn yrði aðeins lagður á þá sem vinna heima sjálfviljugir, án þess að nauðsyn krefji vegna heimsfaraldursins. Sanngirnisrökin fyrir skattinum eru sögð þau að starfsmenn spari á að vinna heima, og gefi minna af sér til samfélagsins í formi eyðslu en þeir sem mæta til vinnu.

Væri slíkur skattur lagður á í Bandaríkjunum reiknast þeim til að hann myndi safna tæpum 50 milljörðum dala, en í Bretlandi tæpum 7 milljón pundum. Í síðarnefnda landinu dygði það til að greiða 2 þúsund pund árlega – um 360 þúsund krónur – til að styðja við lágtekjufólk og þá sem eiga á hættu að missa vinnuna.

„Það hefur lengi verið þörf á sérstökum skatti á heimavinnu“, er haft eftir Luke Templeman hjá Deutsche bank í frétt BBC um málið. „Það sést bara betur núna vegna faraldursins.“