Högum hefur borist andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu vegna kaupa fyrirtækisins á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. að því er fram kemur í tilkynningu til kauphallarinnar. Í bréfinu leggst stofnunin gegn samrunanum þar sem hún telur að hann raski samkeppni, og verði hann ekki samþykktur nema að undangengnum skilyrðum.

Kaupsamningar Haga á hlutabréfum fyrirtækjanna var undirritaður þann 26. apríl síðastliðinn, með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, sem var aflétt 13. júlí síðastliðinn, samþykki hluthafa sem fékkst á aðalfundi 7. júní síðastliðinn og samþykki Samkeppniseftirlitsins sem enn er ekki komið.

Hefur fyrirtækið þegar samþykkt að ganga til sáttaviðræðna við Samkeppniseftirlitið til úrlausnar þeim þáttum sem taldir eru raska samkeppni og koma fram í frummati Samkeppniseftirlitsins.

Allar ályktanir í andmælaskjalinu byggja eins og áður segir á frummati Samkeppniseftirlitsins og geta tekið breytingum gefi ný gögn eða sjónarmið tilefni til þess. Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við andmælaskjalið á framfæri en auk þess eru að hefjast sáttaviðræður um málið í von um að hægt sé að leysa þau samkeppnislegu vandamál sem um ræðir.