Gríska ríkisstjórnin íhugar nú að skipta út öllum æðstu yfirmönnum gríska hersins. Á fundi utanríkis- og varnarmálaráðs grísku stjórnarinnar lagði varnarmálaráðherrann, Panos Beglitis, þetta til. Samkvæmt frétt grísku fréttasíðunnar Athensnews kom tillagan stjórnarliðum og yfirmönnum heraflans mjög á óvart.

Samkvæmt fréttinni á að leysa frá störfum yfirmann gríska heraflans, Ioannis Giagkos, yfirmann gríska landhersins, Fragkos Fragkoulis, yfirmann gríska flughersins Vasilos Klokozas, og yfirmann gríska flotans, Dimitrios Elefsiniotis, og skipa nýja hershöfðingja í þeirra stað. Meðal þeirra sem sitja fundi varnarmálaráðsins er forsætisráðherrann, George Papandreou, en fréttir í dag herma að líf ríkisstjórnar hans hangi á bláþræði.