Arion banki hefur farið þess á leit við stjórn Eikar fasteignafélags að fram fari könnunarviðræður milli félagsins og bankans um samruna fasteignafélaganna Eikar fasteignafélags og Landfesta. Þetta kemur ofan í yfirtökutilboð fasteignafélagsins Regins til hluthafa um kaup á hlutabréfum þeirra í Eik fasteignafélagi í byrjun mánaðar.

Landfestar eru í fullri eigu Arion banka. Markmið viðræðna er að leggja mat á kosti og galla sameiningar fyrir félögin tvö ásamt þeim fasteignum sem Eik fasteignafélag fyrirhugar að kaupa af SMI ehf. SMI ehf er að hluta í eigu Arion banka. Í tilkynningu frá Eik segir að ef til kæmi myndi sameinað félag verða augljós valkostur til skráningar í Kauphöll. SMI ehf er undanskilið yfirtökutilboði Regins í Eik fasteignafélag. Inni í SMI eru fasteignir á borð við Turninn í Kópavogi.

Fram kemur í tilkynningu Eikar að stjórn fasteignafélagsins hafi móttekið beiðni Arion banka og hafi hana nú til umfjöllunar.